[HEIMASÍÐA DAVÍÐS] [Alda Kolbrúnar] [Heimboð Sólar] [Næturflug] [Þögul þrá]

Sigrúnarljóð II

Austur fyrir fjall nú ég ferðast í huga
og finn þar á völlunum silfurtæran hljóm.
Ég heyri nú þytinn þriggja áratuga
þíðan mér segja með kliðmjúkum róm;
á Hvolsvelli finna má fold auðuga
því fegurst á landinu gróa þar blóm.
Á góðviðrisdegi þaðan gefur að líta
Gunnars bleiku akra og slegin tún.
Hagana græna þar hjarðirnar bíta
í Hlíðinni leika sér folöldin brún.
En það var sem í gær er á götu að kríta
glaðlynd í "parís" var telpa nefnd Sigrún.
Já, víst var það hún með vinkonur sínar
og vel mátti heyra hvað hlegið var dátt.
Lipurt hún hoppaði og flétturnar fínar
flöksuðu um hálsinn, og þá var nú kátt.
Hve glatt væri Sigrún um göturnar þínar
að ganga á kvöldin saman tvö sátt!
Ó Sigrún! Af kvenþjóð ertu kosturinn mesti
og Hvolsvallar sértu sómi og ljós.
Auðlegð og gæfu aldrei þig bresti
og ávallt þú verðir sem fegursta rós.
Mynd þína í hugarfylgsnum ég festi
og færi þér í ljóði allt þetta hrós.