Þögul þrá

    1
    Besta vinkona mín er að vestan,
    en hún vill lítið kannast við mig.
    Ég þögull sé þennan kost bestan,
    en þráin samt minnir á sig.
    Hún er líka ástin mín eina,
    ég eldinum neita að leyna.

    2
    Hún er konan sem bensínið bætir,
    svo bílarnir endist sem mest.
    Í vinnunni karlana kætir
    og kyrjar: Olís er best!
    Já, víst er að vel henni gengur,
    í vafa ég er ekki lengur.

    3
    Það segja líka allir er sáu
    hvað sérstök og falleg hún er.
    Hver gleymir ei göllunum fáu
    sem gullið í dýrð sinni sér?
    En er hægt að lýsa í ljóði
    ljómanum af slíku fljóði?

    4
    Kann dimmu í dagsljós að breyta
    og dásamlegt er hennar tal.
    Hún alltaf kann orðum að beita,
    ó, ef ætti ég núna það val.
    Þegar sé ég bros hennar bjarta
    þá bráðnar mitt sækalda hjarta.
    5
    Hún ber ilman angandi rósa,
    já, eitthvað hún hefur við sig.
    Og vel má hún kratana kjósa,
    það kemur ekki mál við mig.
    En hver getur lifað með ljóni?
    Leynast þeir menn hér á Fróni?

    6
    Bestan hún telur sinn bróður
    og bjarma af föðurnum sér.
    Ann líka mjög sinni móður
    og metur hvað heppin hún er.
    Þau minnast við leik þeirra laga,
    ljúfsárra horfinna daga.

    7
    Með trega þar tónarnir flæða,
    það titrar hvert blóm inn um fjörð.
    Fólkið minnist ei fegurri kvæða,
    tárin falla á kyrrláta jörð.
    Á fjörðunum fáir þess njóta
    að finna þar rós milli grjóta.

    8
    Æ, sárt er að sjá nú að baki
    þeirri sól er heitast ég ann.
    Einn ég um vetrarnótt vaki
    og vona Guð bænheyri mann.
    Þó ég gengið hafi götuna á enda,
    þá var gaman í þessu að lenda.