[Aðalvalmynd] [Ljóð][Sögur] [Æviskrá][Dagbækur] [Bréf][Náttúruvísindi]

Ísland - skýringar

ÍSLAND: Birtist í fyrsta árgangi tímaritsins Fjölnis árið 1835 og kom þar strax á eftir inngangi útgefenda. Kvæðið er líka á margan hátt stefnumarkandi fyrir þá Fjölnismenn, sýnir hugsjónir þeirra og markmið. Það mæltist nokkuð misjafnlega fyrir í fyrstu, eins og reyndar tímaritið Fjölnir í heild sinni, og í Sunnanpóstinum sem þeir Fjölnismenn áttu sífellt í útistöðum við, var það kallað "grafskrift yfir Ísland".

Sú sögn er um tildrög kvæðisins að Konráð Gíslason hafi gefið tóninn. Um það segir í Ljóðm83: "Konráð Gíslason dreymdi, að maður kæmi til hans mikill og föngulegur, og ávarpaði hann með kvæði. Þegar hann vaknaði, mundi hann úr því þetta erindi: "Landið var fagurt og frítt/ og fannhvítir jöklanna tindar,/ himininn heiður og blár,/ hafið var skínandi bjart." Sagði hann Jónasi drauminn, og orkti hann þá kvæðið við þessar línur." (Ljóðm83, 390). Konráð víkur sjálfur að þessari sögn í bréfi til Jónasar 16. mars 1844: "Þú berð upp á mig, að ég hafi sagt: Landið er fagurt og frítt. En hafi ég sagt það, þá hef ég helvítis logið það. Þér ferst um að tala, sem ortir utan um þenna skít, mér til skammar og sjálfum Þér til sæmdar!" (Bréf Konráðs Gíslasonar, Rvík 1984, 67).

Bragarhátturinn er elegískur háttur og hér er kvæðið prentað eins og það birtist í Fjölni. Eins og fram hefur komið er þetta pólitískt baráttukvæði og uppbygging þess er hnituð að hinu mikla pólitíska markmiði þeirra Fjölnismanna; að íslenska þjóðin endurheimti sjálfstæði sitt. Í því eru skörp skil milli nútíðar og fortíðar; J. sýnir söguöldina sem hið glæsta skeið íslenskrar þjóðar þar sem iðjusemi og kraftur eru mest áberandi þættir í fari hinna fornu hetja. Hann segir landið vera fagurt sem forðum, en nú hafi þjóðin misst allt baráttuþrek fyrri tíðar, og það þótt sagan blasi við úr hverjum reit. J. endar kvæðið á heldur dapurlegri lýsingu á samtíðinni og því eru það á vissan hátt skiljanleg viðbrögð að þeir sem voru í forsvari fyrir íslensku menningarlífi á þessum tíma brygðust ókvæða við svo hastarlegri mynd af þjóðlífinu.

Ástæða er til að benda á að ekki er vitað til neins skáldskapar eftir J. frá því hann yrkir Hví viltu, andsvala í dagbók sína 23. ágúst 1832 og þar til Ísland birtist í Fjölni 1835. Þó er augljóst á þeirri breytingu sem orðin er á kveðskap Jónasar að þessi ár hans í Kaupmannahöfn hafa haft gagntæk áhrif á yrkingarmáta hans og viðhorf til skáldskapar.

Handrit: Ehr. er ekkert til. Frp. í Fjölni 1835 (1. ár) og gerð kvæðisins þar er hin eina varðveitta. Munur frá Ljóðm47: annaðhvurt f. ,annaðhvort`, okkart f. ,okkar`, hvurt f. ,hvert`.

Ljóðtexti


[Aðalvalmynd] [Ljóð] [Sögur] [Æviskrá] [Dagbækur] [Bréf] [Náttúruvísindi]