[Aðalvalmynd] [Ljóð][Sögur] [Æviskrá][Dagbækur] [Bréf][Náttúruvísindi]

Ég bið að heilsa - skýringar

Almennt

Þetta er talin vera fyrsta sonnetta sem ort er á íslenska tungu. Hún er aðeins varðveitt í einu ehr. og er þar ærið frábrugðin því sem síðar varð. Jónas hefur líklega ort kvæðið í mars-apríl 1844, því Br.P. getur kvæðisins í bréfi til hans 10. apríl og þann 13. er það lesið og samþykkt á Fjölnisfundi með öllum atkvæðum. Þar sem hér er um eitt af þekktustu kvæðum Jónasar að ræða og þær breytingar sem hann gerir gefa ákaflega vel til kynna vinnubrögð hans, er kvæðið birt hér að aftan eins og það leit út í uppkasti skáldsins í mars eða aprílbyrjun 1844:

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast út að fögru landi Ísa-,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó, heilsið öllum heima í orðum blíðum
um haf og land í drottins ást og friði,
leiði þið bárur! bát að fiskimiði
blási þið vindar hlýtt á kinnum fríðum.

Söngvarinn ljúfi, fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegarleysu
í lágan dal, að kveða kvæðin þín,
heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engill með húfu og grænan skúf í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Þess ber að geta að fyrir ofan ,og` í 1. er. (3. l.) setur J. ,þau`. Í 2. er. setur hann ,rómi` f. ofan ,orðum` og hann hefur strikað yfir ,grænan` í 3. er. (3. l.) og sett ,lágan` í staðinn.

Svo virðist sem þetta sé ekki það ehr. sem hann sendir Brynjólfi, því Brynjólfur segir í áðurnefndu bréfi: "Mesta gull er hún ,kveðjan þín`, góði minn! En mætti ekki hafa ,og` fyrir ,þau` í ,þau flykkjast heim að fögru landi Ísa`. Konráði þykir ,engillinn` vera of kýmilegur, en orðið ,söngvari` líkar okkur ekki, en kvæðið er - som sagt - mesta gull." (BréfBrP, Rvík 1964, 49). Það virðist því sem J. hafi gert nokkrar breytingar áður en hann sendir Brynjólfi kvæðið, sbr. að Brynjólfur talar um ,flykkjast heim` í stað ,út` í ehr. Síðan gerir hann aðrar og enn mikilvægari breytingar áður en kvæðið birtist í Fjölni 1844.

Í Kvæði65 tilfærir Ólafur Halldórsson vísu sem gefur til kynna að einhverjum á Íslandi hafi verið kvæðið kunnugt eins og það er í ehr., því þar er talað um grænan skúf (sjá Kvæði65, 312). Sú sögn er einnig til að Hólmfríður Jónsdóttir, dóttir séra Jóns Þorsteinssonar í Reykjahlíð við Mývatn þar sem J. dvaldi við rannsóknir 1839, hafi átt ehr. af þessu kvæði en látið það hverfa ásamt bréfum frá Jónasi, rétt áður en hún lést.

Handrit: Ehr. í KG 31 b IV, og kemur inn á milli skrifa skáldsins um hvali. Hér er fylgt frp. í Fjölni 1844 (7. ár), og þar sem gerð kvæðisins í ehr. er birt í heild hér að ofan er ekki ástæða til að rekja mun gerðanna tveggja lið fyrir lið. Hér er kvæðið sett upp eins og tíðkast með ítalskar sonnettur, eins og er í Fjölni og Ljóðm47.

Ljóðtexti


[Aðalvalmynd] [Ljóð] [Sögur] [Æviskrá] [Dagbækur] [Bréf] [Náttúruvísindi]