[Aðalvalmynd] [Ljóð][Sögur] [Æviskrá][Dagbækur] [Bréf][Náttúruvísindi]

Gunnarshólmi - skýringar

GUNNARSHÓLMI: Birtist fyrst í Fjölni 1838 (4. ár) og ofan við kvæðið er prentuð þessi orðsending Jónasar til lesenda Fjölnis: "Sunnan á Íslandi, í héraði því, sem gengur upp af Landeyjum millum Eyjafjalla og Fljótshlíðar, er allmikið sléttlendi, og hefir fyrrum verið grasi gróið, en er nú nálega allt komið undir eyrar og sanda af vatnagangi; á einum stað þar á söndunum, fyrir austan Þverá, stendur eftir grænn reitur óbrotinn og kallaður Gunnarshólmi, því það er enn sögn manna að þar hafi Gunnar frá Hlíðarenda snúið aftur, þegar þeir bræður riðu til skips, eins og alkunnugt er af Njálu. Þetta er tilefni til smákvæðis þess, sem hér er prentað neðan við."

Allnokkuð hefur verið skrifað um tildrög þessa "smákvæðis" og hafa ýmsar sögur gengið þar um. Þó má telja líklegt að J. hafi ort Gunnarshólma í sumarferð sinni til Íslands 1837. Hann kemur þar fyrst til Vestmannaeyja, eins og lesa má í dagbók hans, en fer til séra Tómasar Sæmundssonar á Breiðabólsstað í Fljótshlíð og dvelur þar um þriggja vikna skeið áður en hann heldur til Reykjavíkur og þaðan norður í land. Sú sögn hefur verið skráð af séra Matthíasi Jochumssyni í tímaritinu Norðurljósinu (30. 11. 1891) eftir frásögn systursonar Jónasar, Hallgríms Tómassonar að J. hafi fyrir norðan hitt Bjarna Thorarensen amtmann og skáld. Þeir hafi tekið tal saman og verið tíðrætt um fornsögurnar: "einkum Njálu, og kvað [Bjarni] það minnkun þeim skáldunum að þeir tæki sér ekki oftar yrkisefni úr þeim, en einkum man hann [Hallgrímur] að nefndur var ,Gunnarshólmi` og þótti honum sem Bjarni skoraði á Jónas að yrkja um hann. Eftir langa viðstöðu riðu þeir frændur þaðan um kvöldið inn á Akureyri; var þá tunglsskin og blíða mikil. Á leiðinni talaði Hallgrímur eitthvað til frænda síns, sem lengst af reið þegjandi. Þá sagði Jónas: ,Tala þú nú sem minnst, frændi, nú skálda ég.`"(86). Samkvæmt frásögn Hallgríms orti Jónas Gunnarshólma þá um nóttina og næsta dag. Hallgrímur reið svo með kvæðið til Bjarna, sem varð þá að orði að nú væri sér sennilega best að hætta að yrkja.

Því verður ekki neitað að talsverður þjóðsagnablær er yfir þessari frásögn, fyrir nú utan hversu ótrúlegt það er að J. hafi ort þvílíkt snilldarkvæði á tveimur dögum, og það undir ströngum bragarhætti sem enginn Íslendingur hafði fyrr glímt við, eins og Hannes Pétursson hefur bent á í grein um kvæðið (Kvæðafylgsni, Rvík 1979). Hann bendir einnig á að Hallgrími Tómassyni hafi áður förlast minni varðandi annað atvik, þannig að engin ástæða sé til þess að taka frásögn hans sem fullgildum sannindum. Miklu líklegra sé að J. hafi verið að yrkja Gunnarshólma drjúgan hluta sumars og hljóta þær þrjár vikur sem hann dvelur í Fljótshlíð að hafa verið mikilvægar.

Bragarháttur Gunnarshólma er tersína, ítalskur háttur sem skáld miðalda eins og Dante og Petrarca höfðu mikið notað, en J. bætir við stuðlasetningu að íslenskum sið. Kvæðið er þrauthugsað að byggingu. Tersínurnar skiptast nákvæmlega í tvo hluta, 33 ljóðlínur hvor. Í hinum fyrri er lýsing landsins, fram að línunni "Þá er til ferðar fákum snúið tveimur". Þar hefst hin sögulega frásögn af Gunnari á Hlíðarenda sem lýkur á orðunum "Svo er Gunnars saga". Þá skiptir um hátt og við tekur oktövuháttur í tveimur átta ljóðlínu hlutum. Þessi skipti á bragarhætti eiga sér einnig rætur í efnistökum. Nú stígur skáldið sjálft fram í fyrstu persónu og dregur lærdóma af sögu Gunnars og birtir meginhugsun kvæðisins.

Boðskapurinn er að mestu hinn sami og í opnunarkvæði Fjölnis, Íslandi, sem einnig var ort undir klassískum bragarhætti. J. bendir á glæsta sögu Íslands og hina fögru náttúru, sem hefur þurft að horfa upp á hnignun þjóðarinnar. Gunnarshólmi verður honum tákn þess að hinn forni kraftur blundar enn í landinu, en þjóðin þurfi að vakna af dásvefni og rísa upp til djarfmannlegri framtíðar, og hafa þá í huga fordæmi manna eins og Gunnars sem heldur vildu bíða hel en bregðast ættjörðinni.

Orðskýringar

Orðskýringar: Frosti og Fjalar: forn dverganöfn, dróma: fjötri, skeið: skip, vigur: spjót, gumi: maður, flárri: fláráðri, falskri, vél: svikum.

Handrit: Ehr. er ekkert til. Frp. í Fjölni 1838 (4. ár). Munur frá Ljóðm47: fagurtæru f. ,fagurtærri`, heiðavötnin f. ,heiðarvötnin`, laufi f. ,lofti`. Þá má geta þess að í Ljóðm13 og síðan í RitI er prentað ,rausnargarði háum` í stað rausnargarði hæstum eins og hér, í frp. og í Ljóðm47.

Ljóðtexti


[Aðalvalmynd] [Ljóð] [Sögur] [Æviskrá] [Dagbækur] [Bréf] [Náttúruvísindi]