BATTERÍSKI SYNDARINN: Upphaf þessa kvæðis er svo í ehr.: "Hæþ veit ec standa/ þat var Herborg áþur" og gefur það aðeins til kynna fyrningu Jónasar. Hér er hún greinilega sprottin af nálægð við Eddukvæðin, eins og minnst verður á, og hafa ber í huga að í upphafi skáldferils síns er J. skólapiltur á Bessastöðum undir miklum áhrifum frá kennurum sínum, Sveinbirni Egilssyni (1791-1852) og Hallgrími Scheving (1781-1861). Sveinbjörn, er síðar varð rektor Lærða skólans í Rvík, var gott skáld og merkur þýðandi fornra bókmennta og hefur með þeim örugglega haft veruleg áhrif á þá skólapilta sem hneigðust til skáldskapar. Hallgrímur var málfræðingur, en einnig skáldmæltur og mun t.d. oft hafa gefið skólapiltum ákveðið efni upp úr fornum sögum og látið þá yrkja um eftir fornum háttum. Hallgrímur hafði með kennslu sinni mikil áhrif, m.a. á þá Fjölnismenn.
Umhverfi kvæðisins er greinilega Reykjavík þessara ára. Lítil grasi vaxin hæð fyrir norðan Arnarhól við sjóinn var kölluð "Batteríið". Þá kann "Herborg" að vera skírskotun til samnefnds virkis ("batteri" á dönsku) sem Jörundur hundadagakonungur lét hlaða á þessum slóðum í júlí 1809, en stóð stutt og var síðan endurreist af dönskum hermönnum þjóðfundarsumarið 1851 og stóðu rústirnar fram til upphafs þessarar aldar.
Í Ljóðm83 og Ljóðm13 er talað um að kvæðið fjalli um siðferðisbresti tiltekins verslunarmanns í Reykjavík, og á einum stað er því haldið fram að sá muni vera Hans Edvard Thomsen ("Innlendur fræðibálkur", Almanak Þjóðvinafélagsins 1925, 97). Sá rökstuðningur mun þó reistur á hæpnum forsendum; trúlega því einu að Edvard þessi giftist síðar (1832) Kristjönu (Christiane Dorotheu) Knudsen sem J. var ástfanginn af um skeið (um KK sjá skýr. við Skønne pige). Af þeim sökum hafa menn talið víst að J. hafi borið kala til Edvards. Sá Bergur sem nefndur er í kvæðinu er ókunnur, en Matthías Þórðarson segir að þetta nafn minni á danskan búðarmann sem á þessum árum (a.m.k. fram á sumar 1826) var starfandi við Flensborgarverslunina í Reykjavík. Um hann er þó ekkert vitað og fullt eins líklegt er að Bergur kvæðisins sé eins konar tákngervingur siðspillingar bæjarins.
J. sækir líkingamál kvæðisins í talsverðum mæli til Eddukvæða. Í 1. erindi til 12. erindis Grímnismála: ,Breiðablik eru in sjöundu/ en þar Baldur hefir/ sér um gerva sali/ á því landi/ er eg liggja veit/ fæsta feiknstafi`. Í 5. erindi til 37. erindis Vafþrúðnismála: ,Hræsvelgur heitir/ er situr á himins enda/ jötunn í arnar ham./ Af hans vængjum/ kveða vind koma/ alla menn yfir`. Sjötta ljóðlína 9. erindis er sótt beint til 62. erindis Sólarljóða: ,Menn sá eg þar/ marga ófegna/ þeir vóru villir vega/ það kaupir sá/ er þessa heims/ apast að óheillum`. Síðasta ljóðlína 11. erindis: "for Nágrindur neðan", er tekin nær beint úr Skírnismálum (35. er.), Lokasennu (63. er.) og Fjölsvinnsmálum (26. er.). Þá er síðasta lína kvæðisins: "Æ koma mein eftir munað", sótt beint í 68. er. Sólarljóða.
Þótt margt í kvæðinu sé dulið, er augljóst að það fjallar um synd og sakleysi og líkingar sínar og myndir af ógnum og aðsteðjandi hættum sækir J. til Eddukvæða. Harður helgaldur kemur af hafi og "lestirnir" vaða yfir allt og alla. Bærinn verður að gróðrarstíu "illsku, andstyggðar og óþols", og þannig virðist sem hér sé þegar kviknuð sú tortryggni sem J. virðist alla tíð hafa borið í garð Reykjavíkur.
Handrit: Ehr. í KG 31 b I. Frp. í Ljóðm47 og munur þessarar útgáfu og þeirrar: 1. er.: þars eg f. ,þar eg`, fleirsta' f. ,flesta`, 3. er.: þá f. ,er` (,þá er` í RitI), hvurt f. ,hvert`, 4. er.: in f. ,hin`, 5. er.: Hvurt f. ,Hvort`, of f. ,um`, 8. er.: ið f. ,hið`, 10. er.: fyri f. ,fyrir`, 11. er.: þá f. ,er`, for f. ,fyrir` (,fyr` í RitI), 12. er.: eð f. ,er`, sá í f. ,sá er í`. Í Ljóðm47 var titill kvæðisins "Baktriski syndarinn". Í kvæðinu er í RitI ýmist fylgt ehr. eða Ljóðm47 og var það víða gert í þeirri útgáfu.